Franz Ferdinand kóvera LCD SOUNDSYSTEM

Sjá!

 

Aldrei að vita nema krakkarnir í Franz leiki þetta á Nösunni í september...

 

 


Franz Ferdinand aftur til Íslands!

Það gleður Hr. Örlyg mjög að geta tilkynnt um komu Franz Ferdinand til Íslands.

Orðrómar hafa lengið verið uppi um væntanlega endurkomu sveitarinnar til Íslands - og fékk rómurinn nýtt líf eftir birtingu smáfréttar í Mogganum fyrir helgi; um að Sprengjuhöllinn myndi mögulega hita upp fyrir sveitina á Íslandi í haust (hver lak því!??). Mikið hringt og mikið spurt.

Franz Ferdinand mun semsagt leika á NASA við Austurvöll, föstudaginn 14. september. Ekki ónýtt að geta boðið upp ásveitina á stað eins og NASA, enda bandið vant að spila á mun stærri tónleikastöðum.

Ætla þeir að nýta tónleikana til að heimfrumflytja nýtt efni, en einnig leika eldri slagara. Búist er við fulltrúum útgáfufyrirtækis Franz Ferdinand, Domino Records, og erlendum fjölmiðlum hingað til lands í tengslum við tónleikana. Alltaf gaman að útlendingum.

Allt síðan sveitin kom hingað síðasta og spilaði á frábærum tónleikum í Kapplakrikanum höfum við stefnt á að endurtaka leikinn. Hr. Örlygur skemmti sér vel. Franzinn skemmti sér konunglega. Enda hafa þeir síðan stefnt á að koma aftur - og óskuðu nú sérstaklega eftir að geta prufukeyrt efni af væntanlegri breiðskífu í Reykjavík.

Efasemdir eru þó uppi hvort í herbúðum Örlygs við tökum jafn stíft á því og síðast á barnum með sveitinni eftir showið. Við vorum viku að jafna okkur. Þetta eru jú Skotar. 

Tilkynnt verður um miðasölu á tónleikana síðar.

PS Við vitum ekkert um það hver mun sjá um upphitun fyrir Franz Ferdinand. Sprengjuhöllinn er hins vegar góðar hugmynd. 

www.myspace.com/franzferdinand

 
mbl.is Franz Ferdinand aftur til Íslands í september
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Deerhoof - hressasta nýbylgjurokksveit heims?

Krakkarnir í Deerhoof hafa lengi staðið fyrir sínu, það vita áhugamenn og -konur um neðanjarðarrokk mætavel. Hróður sveitarinnar hefur lengi farið vaxandi og má nú kalla bandið fullveðja 'indí-aðal' -  þeir sem kunna að meta Blonde Redhead og Sonic Youth, t.a.m., ættu klárlega að gefa Deerhoof gaum og skoða bandið nánar. T.d. mætti byrja á mæspeisi Deerhoof.

Þá eða þessu myndbandi:




mbl.is Á áttunda tug hljómsveita og listamanna hafa staðfest þáttöku í Iceland Airwaves
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mínus spila á Airwaves!

Í kjölfar mannabreytinga virðast strákarnir í Mínus vera öflugri en nokkru sinni fyrr og það gleður okkur að segja frá því að þeir hafa nú staðfest spilamennsku á Airwaves í haust. Mínus hafa verið með á Airwaves nærri því frá upphafi og alltaf staðið fyrir sínu (áttu m.a. rosalega tónleika í Laugardalshöll um það leyti sem Jesus Christ Bobby kom út). Það er engin tilviljun að þeir eru vinsælasta rokksveit landsins. 

Og nú eru þeir enn myndarlegri en áður!

 minus 

Mínus eru líka að spila á GrandRokk annað kvöld. Það er rosalegt að sjá þá spila á svona litlu sviði - og tækifæri til þess eru ekki á hverju strái - þannig að áhugamenn um gaddavír og almennan ólifnað eru eindregið hvattir til þess að rölta við á GrandRokk um 11-leytið.   

Annars er mikið um gestagang á höfuðstöðvum Hr. Örlygs í dag, enda rennur umsóknarfrestur um að spila á Iceland Airwaves 2007  út nú á sunnudaginn. Hægt verður að skila umsóknum inn um póstlúguna hér á Skólavörðustígnum til og með sunnudags, en umsóknir sem póstlagðar eru á mánudaginn n.k. sleppa líka.

Það er vægast sagt magnað að upplifa frá fyrstu hendi hve öflug tónlistarsenan á Íslandi er í dag (fjöldi umsókna einn og sér sannar það), og fátt skemmtilegra en að smella hressum demóum og nýuppteknum geisladiskum á fóninn og heyra hvað allir þessir tónlistarmenn eru að pæla. 

Í þessum skrifuðu er Kitchenmotors-hetjan Kira Kira að stilla upp fyrir útitónleikafjör í 12 Tóna-garðinum. Svaladrykkur í hönd og Kira í eyrunum er frábær leið til að starta helginni.

 


SAMSTARF ICELAND AIRWAVES OG G! FESTIVAL

Boys in a Band spilar á Airwaves & Ultra Mega Technobandið Stefán á G! Festival



Ultra Mega Technobandið Stefán (UMTS) mun leika á tónlistarhátíðinni G! Festival í Færeyjum undir merkjum Iceland Airwaves. G! Festival fer að vanda fram í bænum Götu í Færeyjum frá 19.-21. júlí. Hátíðina þarf líklega ekki að kynna fyrir Íslendingum, enda hafa hérlendir fjölmiðlar og tónlistarmenn heimsótt hana reglulega undanfarin ár. Hátíðinni hefur vaxið fiskur um hrygg ár hvert frá því hún hóf göngu sína og dregur til sín sí-aukinn fjölda ferðalanga sem heimamanna ár hvert.

Framkoma UMTS á G! Festival er liður í samstarfi hátíðarinnar og Iceland Airwaves, en því er þannig háttað að aðstandendur G! Festival velur eina hljómsveit af Airwaves til að koma fram á sinni hátíð og á móti hefur Airwaves valið færeysku sveitina Boys in a Band til að leika undir merkjum G! Festival á Airwaves í haust. Tilgangurinn með framtakinu er að kynna Iceland Airwaves fyrir innlendum sem erlendum gestum G! Festival.

Margir frambærulegustu tónlistarmenn Færeyja koma fram á G! Festival. Auk Boys in a Band, sem vakið hafa mikla athygli síðustu misseri fyrir líflega sviðsframkomu og hressa rokk & ról músík, má nefna Eivör Páldóttur, Teit og nýliðann Bujdam. Ýmsir aðrir listamenn fram á G! Festival og má þar nefna Serena Maneesh og Adjágas frá Noregi, Nephew frá Danmörku, Loney, Dear frá Svíþjóð, Pétur Ben og Dr. Spock frá Íslandi.

Ultra Mega Technobandið Stefán eru nýkomnir úr tónleikaferð til Skotlands þar sem sveitin lék á stærstu tónlistarhátíð landsins, Rock Ness, og kynningarhátíðinni goNorth undir merkjum Iceland Airwaves. Sveitin átti án efa eina eftirminnilegustu tónleika síðustu Airwaves hátíðar, en mikill og góður rómur var gerður að framkomu þeirra á hinum sáluga skemmtistað Pravda. Forsvarsmenn G! Festival sáu sveitina einmitt leika á Airwaves í fyrra og óskuðu í kjölfarið sérstaklega eftir því að fá hana til leiks á sína hátíð.


Hlekkir:
Heimasíða Iceland Airwaves: www.icelandairwaves.com
Heimasíða G! Festival: www.gfestival.com
Heimasíða Boys in a Band: www.myspace.com/boysinaband
Heimasíða Ulta Mega Technobandsins Stefán: www.myspace.com/umtbs

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Boys in a Band þykja með eindæmum morgunhressir

 


Sjá: Chromeo!

Það verður ekkert glatað að dansa við þessa gæja í október.

 

 


Fjöldi spennandi atriða bætist við dagskrá Iceland Airwaves 2007

-Alls 46 atriði nú staðfest

Undirbúningur fyrir hina árlegu tónlistarhátíð Iceland Airwaves er nú í hámarki og hefur þegar fjöldi þekktra listamanna, innlendra sem alþjóðlegra, staðfest komu sína. Nýjustu viðbætur í hóp atriða á Airwaves 2007 eru af ýmsum toga, en eiga sameiginlegt að hafa vakið mikla athygli undanfarið. Koma kanadíska rafdúósins Chromeo ætti að verða mörgum Íslendingnum gleðiefni, en Annuals (US), Ghostigital (IS) og Loney, Dear (SE) eru og á meðal þeirra sem bætast í hópinn í þessu holli. Því er víst að fullyrða að dagskrá Airwaves í ár verði í hæsta gæðaflokki, en áður hafði m.a. verið tilkynnt um komu Bloc Party, !!! og of Montreal. Hátíðin fer líkt og undanfarin ár fram í miðborg Reykjavíkur þriðju helgina í október, dagana 17.-21.

Chromeo þarf vart að kynna fyrir hérlendum tónlistaráhugamönnum. Fyrsta breiðskífa sveitarinnar, She’s in Conrol, hefur hægt og bítandi aflað henni fjölda aðdáenda hér á landi. Leikur sveitin dansvænt popp í anda Hot Chip og þykir gera það af stakri smekkvísi.

Fleiri spennandi nöfn hafa verið staðfest á hátíðina, t.a.m. áðurnefndir Annuals (US), sem slógu í gegn á SXSW-hátíðinni í Texas í vor og þykja ein frambærilegasta nýrokksveit sinnar álfu. Eftir því sem kunnugir segja má búast við brotnum svuntuþeysum, fjölda ásláttarhljóðfæra og trylltri framkomu á tónleikum þeirra. Sænska eins-manns bandið Loney, Dear – sá er á mála hjá hinni þekktu útgáfu SubPop í BNA og hefur vakið mikla athygli nýverið – auk brasilísku dansboltana í Bonde do Role koma einnig fram. Einnig þykir Hr. Örlygi ástæða til að vekja athygli á hljómsveitinni Boys in a Band frá Götu í Færeyjum. Sveitin hefur aðeins starfað í um hálft ár að eigin sögn og leikur rífandi bílskúrs/rokk bræðing í anda Jon Spencer, en frammistaða þeirra á Spot-hátíðinni í Árósum þótti einstaklega kraftmikil af þeim sem sáu til.

Af íslenskum hljómsveitum sem bætast á listann í þessu holli má nefna Ghostigital, Leaves og Singapore Sling, sem allar herja miskunnarlaust á alþjóðlega markaði um þessar mundir með ágætum árangri. Þegar hafði verið m.a. verið greint frá spilamennsku þeirra Benna Hemm Hemm, Mugison, Lay Low og múm og enn á fjöldi atriða eftir að bætast í hópinn, svo víst má telja að allir frambærilegustu tónlistarmenn landsins muni koma fram á Iceland Airwaves 2007. Þess má geta að umsóknarfrestur til að spila á hátíðinni er til og með 15. júlí. 

Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem ein framsæknasta og mest spennandi tónlistarhátíð heims. Allt frá upphafi hefur hátíðin brynnt músíkþyrstum Íslendingum, og ófáum erlendum gestum, með því ferskasta sem uppi er á teningnum í innlendri jafnt sem erlendri tónlist. Hátíðin í ár, sem er sú níunda í röðinni, verður engin undantekning. Þegar hafa 46 atriði verið staðfest á Iceland Airwaves 2007 og má þar finna nokkra atkvæðamestu tónlistarmenn landsins í bland við bæði þekktar og upprennandi erlendar sveitir, en listann í heild má finna hér að neðan.

Þau atriði sem staðfest hafa þátttöku á Iceland Airwaves 2007 og eru hér með kynnt til leiks eru:
!!! (US), Annuals (US), Ampop (IS), Bloc Party (UK), Best Fwends (US), Benni Hemm Hemm (IS), Benny Crespo’s Gang (IS), Bonde do Role (BR), Boys in the Band (FO), Buck 65 (CA), Chromeo (CA), Dikta (IS), FM Belfast (IS), Eberg (IS), Esja (IS), Gavin Portland (IS), Ghostigital (IS), Gus Gus (IS), Hjaltalín (IS), Jenny Wilson (SE), Jeff Who? (IS), Kalli (IS), Khonnor (US), Kira Kira, Leaves (IS), Lay Low (IS), Loney, Dear (SE), Mammút (IS), Motion Boys (IS), Mugison (IS), múm (IS), My Summer as a Salvation Soldier (IS), Mr. Silla & Mongoose (IS), Ólöf Arnalds (IS), of Montreal (US), Pétur Ben (IS), Ra Ra Riot (US), Reykjavík! (IS), Retro Stefson (IS), Seabear (IS), Singapore Sling (IS), Shadow Parade (IS), Sign (IS), Sprengjuhöllinn (IS) Steed Lord (IS) og Ultra Mega Technóbandið Stefán (IS). Alls munu um 170 sveitir koma fram á hátíðinni í ár, svo víst er að listinn á eftir að lengjast duglega áður en yfir lýkur.


Miðasala: Icelandair hafa þegar hafið sölu á pakkaferðum á Iceland Airwaves 2007 á alþjóðlegum vettvangi og hefur hún farið vel af stað, en slíkar innihalda flug, miða á hátíðina og gistingu. Fyrirkomulag á miðasölu hérlendis verður með svipuðum hætti og á fyrri hátíðum, en um hana verður tilkynnt síðar. 

Vefsíða: www.icelandairwaves.com 

Brassarnir knáu, Bonde do Role, á góðri stundu. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband