Airwaves 2007 - Fullt af nýjum böndum

JakoEnn hrannast hljómsveitir og einyrkjar á lista yfir þá sem troða upp á Iceland Airwaves 2007. Hefur ásókn í að spila á hátíðinni aldrei verið meiri en í ár og það endurspeglast í glæsilegri dagskrá, sem enn fer stækkandi.

Í þessu holli bætast rúmlega fjörutíu íslensk atriði og má þar finna ástsæla Airwaves-fastagesti - s.s. Jakobínurínu [á mynd hér frá Airwaves í fyrra], Brain Police og Kimono meðal annarra - í bland við efnilega nýliða (Shogun - sigurvegarar Músíktilrauna 2007, Rafhans 021 o.fl) og allt þar á milli. Einnig bætast við listann erlend eðalbönd á borð við Lali Puna (DE), Ms John Soda (DE), The Duke Spirit (UK) og The Teenagers (UK/FR) – bönd sem sum hver eru lítið þekkt hérlendis, en eiga sammerkt að vera miklar vonarstjörnur tónlistarpressunnar.

The Teenagers og Late of the Pier (UK) koma allar fram á sérstöku kvöldi bresku plötuútgáfunnar Moshi Moshi, en sú hefur staðið fyrir tónleikum á Airwaves undanfarin ár og jafnan kynnt til sögunnar hljómsveitir sem síðar láta mikið fyrir sér. Skemmst er að minnast spilamennsku Klaxons og Tilly and the Wall á þeirra vegum á Airwaves 2006, en einnig hefur fyrirtækið staðið fyrir komu m.a. Hot Chip og Architecture in Helsinki. 

Þýska útgáfan Morr Music er að sama skapi íslenskum tónlistarunnendum að góðu kunn og stendur einnig fyrir kvöldi á Iceland Airwaves í ár. Fyrir utan að gefa út íslensku sveitirnar Seabear og Benna Hemm Hemm (múm hefur einnig verið viðloðandi útgáfuna) náðu Morr-sveitir eins og Lali Puna (DE) og Isan (DE) nokkrum vinsældum hér á landi um árið. Lali Puna munu einmitt leika þar, en einnig koma fram Ms John Soda (DE), Tied & Tickled Trio (DE), Benna Hemm Hemm og Seabear. Þess má geta að Morr kvöldið er haldið í samstarfi við Göethe Institut og er ætlað að stuðla að kynningu á þýskri tónlist á Airwaves, m.a. fyrir þeim aragrúa starfsmanna tónlistarbransans og blaðamanna sem sækja hátíðina heim.

Þau 48 atriði sem nú bætast á dagskrá Iceland Airwaves 2007 eru;
Æla, Atómstöðin, Biogen, Brain Police, Cocktail Vomit, Dimma, Drep, Dýrðin, Ég, Envy of Nona, Fabúla, Foals (UK), Foreign Monkeys, Future Future, Hafdís Huld, Hellvar, Hoffman, I Adapt, Jakobínarína , Kalli, Kenya, Kimono, Lali Puna (DE), Late of the Pier (UK), Ms John Soda (DE), Múgsefjun,, Nilfisk, Noise, Perfect Disorder, Póetrix, President Bongo (DJ set), Rafhans 021, Royal Fortune, Shogun, Single Drop, Sólstafir, The Duke Spirit (UK), The Music Zoo, The Teenagers (UK/FR), The Telepathetics, The Viking Giant Show, Thundercats, Tied & Tickled Trio (DE), Toggi, Úlpa, Védís, VilHelm og Weapons.

Enn fleiri listamenn munu bætast við dagskrá Iceland Airwaves 2007 á næstu misserum.


Miðasala
Icelandair hafa þegar hafið sölu á pakkaferðum á Iceland Airwaves 2007 á alþjóðlegum vettvangi og hefur hún farið vel af stað, en slíkar innihalda flug og miða á hátíðina auk gistingu. Fyrirkomulag á miðasölu hérlendis verður með svipuðum hætti og á fyrri hátíðum, en um hana verður tilkynnt síðar.

Vefsíða
www.icelandairwaves.com


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband