Fjöldi spennandi atriða bætist við dagskrá Iceland Airwaves 2007

-Alls 46 atriði nú staðfest

Undirbúningur fyrir hina árlegu tónlistarhátíð Iceland Airwaves er nú í hámarki og hefur þegar fjöldi þekktra listamanna, innlendra sem alþjóðlegra, staðfest komu sína. Nýjustu viðbætur í hóp atriða á Airwaves 2007 eru af ýmsum toga, en eiga sameiginlegt að hafa vakið mikla athygli undanfarið. Koma kanadíska rafdúósins Chromeo ætti að verða mörgum Íslendingnum gleðiefni, en Annuals (US), Ghostigital (IS) og Loney, Dear (SE) eru og á meðal þeirra sem bætast í hópinn í þessu holli. Því er víst að fullyrða að dagskrá Airwaves í ár verði í hæsta gæðaflokki, en áður hafði m.a. verið tilkynnt um komu Bloc Party, !!! og of Montreal. Hátíðin fer líkt og undanfarin ár fram í miðborg Reykjavíkur þriðju helgina í október, dagana 17.-21.

Chromeo þarf vart að kynna fyrir hérlendum tónlistaráhugamönnum. Fyrsta breiðskífa sveitarinnar, She’s in Conrol, hefur hægt og bítandi aflað henni fjölda aðdáenda hér á landi. Leikur sveitin dansvænt popp í anda Hot Chip og þykir gera það af stakri smekkvísi.

Fleiri spennandi nöfn hafa verið staðfest á hátíðina, t.a.m. áðurnefndir Annuals (US), sem slógu í gegn á SXSW-hátíðinni í Texas í vor og þykja ein frambærilegasta nýrokksveit sinnar álfu. Eftir því sem kunnugir segja má búast við brotnum svuntuþeysum, fjölda ásláttarhljóðfæra og trylltri framkomu á tónleikum þeirra. Sænska eins-manns bandið Loney, Dear – sá er á mála hjá hinni þekktu útgáfu SubPop í BNA og hefur vakið mikla athygli nýverið – auk brasilísku dansboltana í Bonde do Role koma einnig fram. Einnig þykir Hr. Örlygi ástæða til að vekja athygli á hljómsveitinni Boys in a Band frá Götu í Færeyjum. Sveitin hefur aðeins starfað í um hálft ár að eigin sögn og leikur rífandi bílskúrs/rokk bræðing í anda Jon Spencer, en frammistaða þeirra á Spot-hátíðinni í Árósum þótti einstaklega kraftmikil af þeim sem sáu til.

Af íslenskum hljómsveitum sem bætast á listann í þessu holli má nefna Ghostigital, Leaves og Singapore Sling, sem allar herja miskunnarlaust á alþjóðlega markaði um þessar mundir með ágætum árangri. Þegar hafði verið m.a. verið greint frá spilamennsku þeirra Benna Hemm Hemm, Mugison, Lay Low og múm og enn á fjöldi atriða eftir að bætast í hópinn, svo víst má telja að allir frambærilegustu tónlistarmenn landsins muni koma fram á Iceland Airwaves 2007. Þess má geta að umsóknarfrestur til að spila á hátíðinni er til og með 15. júlí. 

Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem ein framsæknasta og mest spennandi tónlistarhátíð heims. Allt frá upphafi hefur hátíðin brynnt músíkþyrstum Íslendingum, og ófáum erlendum gestum, með því ferskasta sem uppi er á teningnum í innlendri jafnt sem erlendri tónlist. Hátíðin í ár, sem er sú níunda í röðinni, verður engin undantekning. Þegar hafa 46 atriði verið staðfest á Iceland Airwaves 2007 og má þar finna nokkra atkvæðamestu tónlistarmenn landsins í bland við bæði þekktar og upprennandi erlendar sveitir, en listann í heild má finna hér að neðan.

Þau atriði sem staðfest hafa þátttöku á Iceland Airwaves 2007 og eru hér með kynnt til leiks eru:
!!! (US), Annuals (US), Ampop (IS), Bloc Party (UK), Best Fwends (US), Benni Hemm Hemm (IS), Benny Crespo’s Gang (IS), Bonde do Role (BR), Boys in the Band (FO), Buck 65 (CA), Chromeo (CA), Dikta (IS), FM Belfast (IS), Eberg (IS), Esja (IS), Gavin Portland (IS), Ghostigital (IS), Gus Gus (IS), Hjaltalín (IS), Jenny Wilson (SE), Jeff Who? (IS), Kalli (IS), Khonnor (US), Kira Kira, Leaves (IS), Lay Low (IS), Loney, Dear (SE), Mammút (IS), Motion Boys (IS), Mugison (IS), múm (IS), My Summer as a Salvation Soldier (IS), Mr. Silla & Mongoose (IS), Ólöf Arnalds (IS), of Montreal (US), Pétur Ben (IS), Ra Ra Riot (US), Reykjavík! (IS), Retro Stefson (IS), Seabear (IS), Singapore Sling (IS), Shadow Parade (IS), Sign (IS), Sprengjuhöllinn (IS) Steed Lord (IS) og Ultra Mega Technóbandið Stefán (IS). Alls munu um 170 sveitir koma fram á hátíðinni í ár, svo víst er að listinn á eftir að lengjast duglega áður en yfir lýkur.


Miðasala: Icelandair hafa þegar hafið sölu á pakkaferðum á Iceland Airwaves 2007 á alþjóðlegum vettvangi og hefur hún farið vel af stað, en slíkar innihalda flug, miða á hátíðina og gistingu. Fyrirkomulag á miðasölu hérlendis verður með svipuðum hætti og á fyrri hátíðum, en um hana verður tilkynnt síðar. 

Vefsíða: www.icelandairwaves.com 

Brassarnir knáu, Bonde do Role, á góðri stundu. 


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband